Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir

Mál nr. 633/2021 - Úrskurður

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 633/2021

Fimmtudaginn 3. mars 2022

A

gegn

Vinnumálastofnun

Ú R S K U R Ð U R

Mál þetta úrskurða Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir lögfræðingur, Agnar Bragi Bragason lögfræðingur og Arnar Kristinsson lögfræðingur.

Með kæru, dags. 24. nóvember 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, um að fella niður rétt hans til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um greiðslur atvinnuleysisbóta hjá Vinnumálastofnun 21. maí 2019 og var umsókn hans samþykkt 26. júní 2019. Þann 14. júlí 2021 var kærandi boðaður í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram daginn eftir. Tekið var fram að um skyldumætingu væri að ræða og að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til stöðvunar greiðslna. Kærandi boðaði forföll samdægurs. Þann 3. ágúst 2021 var kærandi boðaður á ný í viðtal hjá Vinnumálastofnun sem fara átti fram daginn eftir. Kærandi boðaði forföll á ný samdægurs. Með bréfi Vinnumálastofnunar, dags. 10. ágúst 2021, var óskað eftir skriflegri afstöðu kæranda fyrir því að hafa ekki mætt í boðuð viðtöl. Skýringar bárust frá kæranda 12. ágúst 2021. Með ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, var kæranda tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar þar sem hann hafi ekki mætt í boðuð viðtöl hjá stofnuninni. 

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála þann 24. nóvember 2021. Með bréfi, dags. 30. nóvember 2021, óskaði úrskurðarnefndin eftir greinargerð Vinnumálastofnunar ásamt gögnum málsins. Greinargerð Vinnumálastofnunar barst 11. janúar 2022 og var kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 12. janúar 2022. Athugasemdir bárust frá kæranda 31. janúar 2022 og voru þær kynntar Vinnumálastofnun með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 8. febrúar 2022. Frekari athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Kærandi tekur fram að hann sé algjörlega ósammála ákvörðun Vinnumálastofnunar í máli hans og því leggi hann fram kæru. Það séu margar rangfærslur og mannleg mistök frá Vinnumálastofnun í máli hans sem sýni vanhæfni starfsfólks og að stofnunin vinni ekki almennilega samkvæmt hlutverki sínu að aðstoða fólk sem þurfi aðstoð, heldur vinni gegn því. Vinnumálastofnun einblíni á að lækka atvinnuleysishlutfall, treysti á málsgreinar þeirra og slípi til orðspor sitt í dagblöðum með því að svipta fólk réttindum sínum, án þess að sýna neina viðleitni til að skilja aðstæður fólks. Mannfólkið sé þó ekki bara tölur á blaði heldur manneskjur sem á einhverjum tímapunkti í lífinu hafi lent í erfiðum aðstæðum, ekki bara vegna eigin mistaka heldur vegna annarra mannlegra mistaka, eins og til dæmis heimsfaraldur með öllum sínum afleiðingum og miklu stressi. Þess vegna óski kærandi eftir því að ranglega dæmt mál hans verði skoðað sem og hans aðstæður.

Kærandi sé með mjög sterk rök og sannanir fyrir vanhæfni og vanþekkingu Vinnumálastofnunar í máli hans. Í fyrsta lagi sé ásökun Vinnumálastofnunar um að hann hafi ekki verið á landinu, án nokkurra sannana og mjög ófagmannleg. Þvert á móti sé kærandi með mjög sterk sönnunargögn, eins og bankayfirlit sem sýni að hann hafi verið nákvæmlega á þeim stað sem hann hafi sagt við ráðgjafa í símtali að hann væri. Í öðru lagi hafi Vinnumálastofnun ásakað hann mörgum sinnum, þrátt fyrir að hann hafi oftar en einu sinni óskað eftir að því yrði hætt. Kærandi hafi í raun bara verið boðaður í viðtal tvisvar sinnum en ekki fjórum sinnum. Fyrra viðtalið hafi verið áætlað 15. júlí 2021 og seinna þann 4. ágúst 2021. Í bæði skiptin hafi hann fengið boð með tölvupósti daginn áður og hann hafi hringt strax í Vinnumálastofnun. Eftir fyrra símtalið þann 14. júlí 2021 hafi hann átt samtal við mjög dónalega og ófaglega konu sem hafi öskrað og ekki viljað hlusta á hann. Kæranda hafi þá liðið enn verr í þessum streituvaldandi aðstæðum en sem betur fer hafi hann fengið samband við annan starfsmann. Kærandi hafi útskýrt fyrir þeim starfsmanni af hverju hann gæti ekki mætt í viðtalið daginn eftir. Starfsmaðurinn hafi hlustað og samþykkt skýringar kæranda en einnig óskað eftir að kærandi setti góða ferilskrá á svæði Vinnumálastofnunar. Það hafi hann gert samdægurs. Eftir seinna viðtalsboðið hafi kærandi strax aftur hringt til Vinnumálastofnunar og átt ánægjulegt samtal við starfsmann. Kærandi hafi aftur útskýrt aðstæður sínar og svo virtist sem starfsmaðurinn hafi skilið þær. Starfsmaðurinn hafi sagt kæranda að hann myndi senda honum nýjan tölvupóst sem fyrst með frekari leiðbeiningum og að hann ætti ekki að hafa áhyggjur en hann hafi aldrei fengið slíkan tölvupóst. Kærandi vilji einnig nefna að starfsmaðurinn hafi látið það líta þannig út að allt væri í lagi með aðstæður kæranda, að hann ætti að halda áfram að leita að starfi og ekki hafa áhyggjur af neinum afleiðingum. Síðar hafi komið í ljós að það hafi verið stór lygi.

Kærandi tekur fram að af skýringarbréfi hans frá 12. ágúst 2021 megi augljóslega sjá að hann hafi útskýrt aðstæður sínar eins skýrt og hægt hafi verið og að ásakanir um að hann væri hvorki viljugur til samstarfs né að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum væru rangar. Í raun sýni öll sönnunargögn málsins hið gagnstæða, að samstarfsvilji Vinnumálastofnunar hafi ekki verið fyrir hendi. Einnig sé skrýtið að Vinnumálastofnun hafi ekki hafnað skýringum kæranda á því að missa af fyrra viðtalinu þann 15. júlí 2021 og ekki stöðvað greiðslur til hans. Það sama eigi við um ásakanir stofnunarinnar í byrjun um að hann væri ekki á landinu og að hafa ekki mætt í fjögur viðtöl og svo skipta yfir í tvö og loks kenna honum um að vera í atvinnuleit á öðrum stað á Íslandi og vera stressaður yfir lífinu. Það sé bara enn ein sönnunin um vanhæfni og ófagmennsku Vinnumálastofnunar. Kærandi óski eftir að mál hans verði meðhöndlað eins og best verði á kosið og af fullri einlægni þannig að sama hver útkoman verði sé hægt að segja að viðkomandi hafi gert það besta sem hann hafi getað gert í málinu og að rétt niðurstaða liggi fyrir.

Í athugasemdum kæranda kemur fram að af greinargerð Vinnumálastofnunar megi því miður sjá sama mynstur af fáfræði og ófagmennsku. Þegar kærandi hafi sótt um atvinnuleysisbætur þann 21. maí 2019 á skrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjavík hafi starfsmaður sýnt honum og aðstoðað við að setja allar nauðsynlegar upplýsingar á „Mínar síður“ stofnunarinnar. Með aðstoð starfsmanns hafi kærandi gert allt sem hann hafi verið beðinn um. Það sé einfaldlega hægt að sanna með sms skilaboðum og tölvupóstum sem kærandi hafi fengið frá stofnuninni löngu áður en hann hafi verið ásakaður um að veita ekki nauðsynlegar upplýsingar. Eins megi sjá af greinargerð Vinnumálastofnunar að sumar ásakanir veki fleiri spurningar en svör. Sem dæmi megi nefna hvernig það geti verið að hann hafi fengið símtal frá hugsanlegum vinnuveitanda og hvernig hann hafi haft ferilskrá kæranda og upplýsingar um hann til að hann kæmi til greina sem starfsmaður ef hann hafi hvorki verið með símanúmer sitt né ferilskrá skráð í kerfi stofnunarinnar eins og Vinnumálastofnun haldi fram. Það sé bara önnur staðreynd um rangar ásakanir. Reyndar neiti kærandi því ekki að hann sé ekki í síma sínum allan sólarhringinn og að hann eigi sér einkalíf fyrir utan Vinnumálastofnun. Kærandi hafi verið með eitt ósvarað símtal frá hugsanlegum vinnuveitanda og hann hafi hringt strax til baka samdægurs og þá verið sagt að í augnablikinu hefði enginn áhuga á honum.

Varðandi lögheimilisbreytingu sé í fyrsta lagi ekki hægt að breyta heimilisfangi á heimasíðunni, eingöngu í gegnum skra.is. Í öðru lagi sé ekki hægt að búa á Íslandi og vera í opinberu skráningarkerfi án lögheimilis. Á sama tíma hafi kærandi tæknilega verið án lögheimilis þar sem hann hafi búið í tjaldi á tjaldsvæði en það hafi ekki verið möguleiki að skrá sig á þeim forsendum. Kærandi hafi því ekki haft annan kost en að hafa skráð síðasta heimili sitt sem hafi verið B. Kærandi bendi einnig á að þrátt fyrir að hann hafi ekki búið á C síðan í september 2019 þar sem hann hafi verið búsettur á undan að B, hafi enn í ágúst 2021 mikilvæg skjöl verið send á það heimilisfang. Það sé önnur sönnun fyrir ófagmennsku og skriffinnskukerfi sem virki ekki sem skyldi.

Varðandi ósvarað símtal frá Vinnumálastofnun þann 15. júlí 2021 muni kærandi hreinlega ekki eftir því en hafi hann misst af símtali þá hafi hann örugglega hringt fljótt til baka þar sem það hafi verið mikilvægt fyrir hann að vera í sambandi og samstarfi við stofnunina. Það hafi hann alltaf gert þar sem um einu innkomuna hafi verið að ræða á þessu erfiða tímabili sumarið 2021. Kærandi hafi þá nýlega misst tvo nána ættingja, hafi ekki fundið vinnu, ekki haft fastan dvalarstað á sama tíma og hann hafi átt við geðræn vandamál að stríða. Kærandi hefði því örugglega ekki sett sig í þá stöðu að eiga á hættu að missa þann stuðning sem hann hafi fengið frá Vinnumálastofnun. Það sem kærandi hafi fengið frá Vinnumálastofnun, og sé þakklátur fyrir, hafi að minnsta kosti verið eitthvað til að taka sér tak og lifa af þennan erfiða tíma. Kærandi vilji benda á nokkrar mikilvægar upplýsingar varðandi viðtalsboðin í tölvupóstunum. Vinnumálastofnun segi að í báðum tilvikum hafi hann fengið sólarhrings fyrirvara en það sé ekki alveg rétt. Seinna viðtalsboðið hafi komið innan við sólarhring áður. Einnig hafi í tölvupóstunum komið fram að ótilkynnt fjarvera gæti leitt til greiðslustöðvunar í samræmi við viðeigandi ákvæði laga. Kærandi hafi hringt til Vinnumálastofnunar sama dag og látið vita af hans stöðu. Einnig sé ekki ljóst hvers vegna hann hafi ekki verið beðinn um að koma á skrifstofu stofnunarinnar á Egilsstöðum eftir að hafa sagst vera þar nálægt í stað þess að keyra alla leið til Reykjavíkur til að skrá sig inn.

Kærandi ítreki að hann hafi hringt í Vinnumálastofnun eftir bæði viðtalsboðin og skýrt frá aðstæðum sínum. Í hvorugt skiptið hafi starfsmaður sagt orð um afleiðingar, viðurlög eða hvað sem er ef hann myndi ekki mæta á skrifstofuna í Reykjavík daginn eftir. Þvert á móti virtist hann skilja aðstæðurnar og jafnvel í samtalinu þann 3. ágúst um að kærandi væri nær Egilsstöðum en Reykjavík og því hentugra að mæta á skrifstofuna þar, hafi starfsmaðurinn látið það líta þannig út eins og að það væri ekkert vandamál, hann myndi bráðum fá nýjan tölvupóst með frekari upplýsingum. Starfsmaðurinn hafi ekki minnst einu orði á að það yrðu afleiðingar ef kærandi færi ekki til Reykjavíkur. Kærandi bendi á að hann hafi ekki neitað að taka þátt í viðtölunum og ef starfsmaðurinn hefði sagt honum að hann yrði að vera viðstaddur viðtölin daginn eftir þá hefði hann áreiðanlega mætt. Það hafi starfsmaðurinn ekki gert og ekki heldur sent tölvupóstinn eins og hann hafi lofað.

Kærandi ítreki að hann hafi sýnt samstarfsvilja og farið á eigin forsendum á skrifstofu Vinnumálastofnunar á Ísafirði en hún hafi verið lokuð vegna frídaga. Grunur Vinnumálastofnunar um að hann væri ekki á landinu á þessum tíma og ósk um flugmiða hafi verið fáránlegur þar sem hann hafi ekki verið erlendis og ætti því ekki neina flugmiða til að sýna. Þvert á móti hafi kærandi sterkar sannanir fyrir því að hafa verið á Íslandi allan tímann. Ásakanir um að hann hafi neitað að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum sé þvættingur. Kærandi hafi aldrei á þeim tíma sem hann hafi verið atvinnulaus neitað að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum, hvort sem það hafi verið íslenskunámskeið, mánaðarleg stimplun, fundir eða annað slíkt. Kærandi hafi ávallt sýnt samstarfsvilja og tekið öllum vinnumarkaðsaðgerðum af alvöru og virðingu. Kærandi hafi ávallt uppfyllt skyldur sínar er varði vinnumarkaðsaðgerðir og því sé hann algjörlega ósammála rökum Vinnumálastofnunar í málinu. Einnig telji kærandi að ákvörðun um refsingu hafi verið byggð á röngum ásökunum. Allt málið og þessar aðstæðu hafi gert líf hans mun erfiðara en það hafi verið, bæði varðandi geðheilsu hans og fjárhagsstöðu. Þess vegna muni kærandi berjast til enda við að sanna sakleysi sitt í málinu með öllum löglegum leiðum og rökum sem hann hafi. Kærandi skilji að það verði erfitt fyrir hann einan, menntaðann matreiðslumann, án reynslu af pappírsvinnu og án lögfræði- eða faglegrar aðstoðar, gagnvart stórri ríkisstofnun með öllum sínum lögfræðingum og starfsmönnum sem hafi það hlutverk að þekkja lögin og fái borgað fyrir það með peningum skattgreiðenda. Kærandi muni þó ganga úr skugga um að hann hafi gert það besta í málinu, hafi fylgt þeirri áætlun sem hann hafi verið beðinn um, hafi tekið virkan þátt í vinnumarkaðsaðgerðum og verið samstarfsfús við Vinnumálastofnun.  

III.  Sjónarmið Vinnumálastofnunar

Í greinargerð Vinnumálastofnunar kemur fram að þann 14. júlí 2021 hafi kærandi verið boðaður til viðtals í Kringlunni 1 í Reykjavík þann 15. júlí klukkan 11:00. Kæranda hafi verið tjáð að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll þyrfti að boða án ástæðulausrar tafar. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans yrðu stöðvaðar. Ástæða þess að kærandi hafi verið boðaður til umrædds viðtals hafi verið sú að Vinnumálastofnun hafði fengið þær upplýsingar að kærandi hefði ekki svarað síma sínum þegar atvinnurekandi hafi reynt að ná í hann vegna mögulegs starfs. Þá hafi kærandi hvorki látið Vinnumálastofnun í té ferilskrá sína né hafi hann skráð uppfært símanúmer sitt hjá stofnuninni. Í umræddu viðtali hafi meðal annars verið ætlunin að ráða bót á því. Sama dag, eða þann 14. júlí, hafi kærandi hringt í ráðgjafa Vinnumálastofnunar. Kærandi hafi kvaðst vera heimilislaus og á leið til D og því gæti hann ekki mætt í umrætt viðtal. Ráðgjafi stofnunarinnar hafi hvatt kæranda til þess að uppfæra ferilskrá sína og heimilisfang svo að hægt væri að miðla honum í viðeigandi störf. Þann 15. júlí hafi ráðgjafi Vinnumálastofnunar hringt í uppgefið símanúmer kæranda. Ástæða þess hafi verið sú að kærandi hafði ekki uppfært heimilisfang sitt. Kærandi hafi aftur á móti ekki svarað í símann.

Þann 3. ágúst 2021 hafi kærandi aftur verið boðaður til viðtals í Kringlunni 1, Reykjavík, þann 4. ágúst. Kæranda hafi aftur verið tjáð að um skyldumætingu væri að ræða og að öll forföll þyrfti að boða án ástæðulausrar tafa. Athygli kæranda hafi verið vakin á því að ótilkynnt forföll kynnu að leiða til þess að greiðslur atvinnuleysistrygginga til hans yrðu stöðvaðar. Sama dag, þ.e. þann 3. ágúst, hafi kærandi hringt í ráðgjafa Vinnumálastofnunar til að láta vita að hann gæti ekki mætt í umrætt viðtal. Kærandi hafi sagsts vera fluttur nærri Egilsstöðum og gæti þar af leiðandi ekki mætt. Með erindi, dags. 10. ágúst 2021, hafi verið óskað eftir skriflegum skýringum kæranda á ástæðum þess að hann hafi ekki mætt til boðaðs viðtals. Áréttað hafi verið að hafi atvinnuleitandi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum án gildra ástæðna gæti hann þurft að sæta biðtíma eftir greiðslu atvinnuleysistrygginga. Jafnframt hafi verið óskað eftir því að kærandi framvísaði flugfarseðlum ef slíkt ætti við þar sem grunur hafði vaknað um að kærandi væri erlendis. 

Þann 12. ágúst hafi kærandi veitt Vinnumálastofnun skýringar á fjarveru sinni í boðað viðtal. Kærandi hafi sagst vera að ferðast um landið í leit að atvinnu. Hann hafi hringt í Vinnumálastofnun vegna umræddra viðtala og boðað fjarveru sína. Kærandi hafi ætlað að mæta til Vinnumálastofnunar á Ísafirði þann 23. júlí 2021 en þar hafi verið lokað. Kærandi hafi áréttað að hann hefði hvorki neitað að taka þátt í vinnumarkaðsaðgerðum né væri hann erlendis. Með erindi, dags. 26. ágúst 2021, hafi kæranda verið tilkynnt að bótaréttur hans væri felldur niður í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar vegna þess að hann hefði ekki mætt til boðaðra viðtala þann 15. júlí og þann 4. ágúst 2021.

Í kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála sé að finna frekari skýringar frá kæranda. Kærandi segist aðeins hafa verið boðaður til tveggja viðtala en ekki fjögurra líkt og upphafleg tilkynning til hans frá Vinnumálastofnun hafi kveðið á um. Þá greini kærandi frá því að hann hafi hringt og boðað fjarveru sína þegar hann hafi verið boðaður til umræddra viðtala og hafi starfsmenn Vinnumálastofnunar að hans mati að mestu sýnt honum skilning. Kærandi geri jafnframt verulegar athugasemdir við vinnubrögð Vinnumálastofnunar. Hann telji stofnunina og starfsmenn hennar ekki sýna samstarfsvilja og að ekki sé tekið tillit til aðstæðna í samfélaginu. Þá þyki kæranda ásakanir Vinnumálastofnunar þess efnis að hann kynni mögulega að vera erlendis ekki eiga við rök styðjast.

Lög nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar gildi um atvinnuleysistryggingar launamanna og sjálfstætt starfandi einstaklinga á innlendum vinnumarkaði þegar þeir verði atvinnulausir. Samkvæmt g-lið 1. mgr. 14. gr. felist virk atvinnuleit meðal annars í því að hafa vilja og getu til að taka þátt í þeim vinnumarkaðsaðgerðum er standi til boða. Í 13. gr. laga nr. 55/2006 um vinnumarkaðsúrræði komi einnig fram skylda þess sem teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar til að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum sem Vinnumálastofnun ákveði.  Ákvæði 13. gr. sé svohljóðandi:

„Atvinnuleitandi skal fylgja eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum skv. 11. gr. og gera það sem í hans valdi stendur til að bæta vinnufærni sína til þess að verða virkur þátttakandi á vinnumarkaði. Þar á meðal skal atvinnuleitandi ávallt mæta í viðtöl til ráðgjafa Vinnumálastofnunar skv. 14. gr. og taka þátt í þeim vinnumarkaðsúrræðum er standa honum til boða. Atvinnuleitandi skal jafnframt tilkynna Vinnumálastofnun um þær breytingar sem kunna að verða á vinnufærni hans eða aðstæðum að öðru leyti án ástæðulausrar tafar.“

Þá sé í 1. mgr. 14. gr. kveðið á um að ráðgjafar Vinnumálastofnunar skuli hafa eftirlit með því að atvinnuleitendur fylgi eftir áætlun um atvinnuleit og þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsúrræðum. Ráðgjafar stofnunarinnar skuli boða atvinnuleitendur reglulega í viðtöl eftir þörfum hvers og eins atvinnuleitanda.

Á grundvelli 7. mgr. 9. gr. laga um atvinnuleysistryggingar beri atvinnuleitendum að hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Í tilfelli kæranda hafi hann verið boðaður til viðtals hjá stofnuninni en samkvæmt 3. mgr. 13. gr. laganna sé Vinnumálastofnun heimilt að boða atvinnuleitendur til stofnunarinnar með sannanlegum hætti, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum þeirra sem kunni að hafa áhrif á rétt þeirra til atvinnuleysisbóta. Atvinnuleitendur skuli þá vera reiðubúnir að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Fyrir liggi að kærandi hafi hvorki mætt til viðtals í Kringlunni 1, Reykjavík, þann 15. júlí né þann 4. ágúst 2021. Áður hafi kærandi fengið senda tilkynningu í tölvupósti um umrædd viðtöl þar sem tímasetning og staðsetning hafi verið tilgreind. Í báðum tilfellum hafi kærandi fengið um sólarhrings fyrirvara. Á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar hafi kæranda verið gert að sæta viðurlögum vegna þessa. Ákvæðið sé svohljóðandi:

„Sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í a.m.k. fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur skal ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta skv. VII. kafla fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila, sbr. þó 4. mgr. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma skv. 6. mgr. 9. gr., 3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr.“

Í 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar komi skýrt fram að hafni einstaklingur þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum skuli hann sæta tveggja mánaða biðtíma eftir atvinnuleysisbótum. Hið sama gildi þegar hinn tryggði mæti ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma. Í greinargerð er fylgdi frumvarpi því er varð að lögum um atvinnuleysistryggingar sé efni 58. gr. laganna nánar skýrt. Þar segi að Vinnumálastofnun annist skipulag vinnumarkaðsaðgerða og að litið sé svo á að þeim sem tryggðir séu innan atvinnuleysistryggingakerfisins sé skylt að taka þátt í vinnumarkaðsúrræðum. Þá sé jafnframt tekið fram í greinargerðinni að bregðist hinn tryggði þeirri skyldu leiði það til viðurlaga í formi biðtíma eftir atvinnuleysisbótum.

Af framangreindum lagaákvæðum sé ljóst að heimildir Vinnumálastofnunar til að boða til sín atvinnuleitendur, og sömuleiðis skyldur atvinnuleitanda til að verða við slíkri boðun, séu ríkar. Þá sé það fortakslaust skilyrði svo að unnt sé að aðstoða umsækjanda um atvinnuleysisbætur við að fá starf við hæfi og gefa honum kost á þátttöku í viðeigandi vinnumarkaðsaðgerðum að atvinnuleitandi sinni þeim boðunum sem honum séu send. Í skilmálum sem umsækjendur um atvinnuleysisbætur samþykki þegar þeir sæki um komi fram að viðkomandi hafi verið upplýstur um að honum sé skylt að mæta í þau viðtöl, sækja þá fundi, námskeið og önnur úrræði sem Vinnumálastofnun boði hann til.

Eins og áður segi hafi kærandi boðað fjarveru sína í tvö viðtöl. Tilgangur slíkra viðtala samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar sé sá að kanna aðstæður atvinnuleitanda, meðal annars hvort viðkomandi uppfylli enn skilyrði fyrir greiðslu atvinnuleysistrygginga, til dæmis skilyrði um virka atvinnuleit. Tilgangur þeirra viðtala sem kærandi hafi verið boðaður til hafi verið sá sami, þ.e. að kanna aðstæður hans, meðal annars í ljósi þess að hann hafi ekki svarað síma sínum þegar honum hafi mögulega staðið starf til boða og jafnframt að óska eftir frekari upplýsingum, til dæmis ferilskrá og uppfærðu símanúmeri. Rík þörf hafi verið á því að kærandi mætti til umræddra viðtala.

Vinnumálastofnun vilji jafnframt vekja athygli á því að heimilisfang kæranda á þeim tíma sem hann hafi verið boðaður til umræddra viðtala hafi í kerfum stofnunarinnar verið skráð í Reykjavík. Meðal annars af þeirri ástæðu hafi kærandi verið boðaður til viðtals í Kringlunni 1, Reykjavík. Í kjölfar þess að Vinnumálastofnun hafi fengið upplýsingar frá kæranda þess efnis að hann væri ekki lengur til heimilis í Reykjavík hafi hann verið beðinn um að uppfæra heimilisfang sitt svo að hægt væri að veita honum viðeigandi þjónustu. Kærandi hafi aftur á móti ekki uppfært heimilisfang sitt. Þá hafi kærandi skýrt frá því að hann væri á ferðalagi um landið í leit að atvinnu. Að mati Vinnumálastofnunar verði að gera þær kröfur til atvinnuleitanda, sem dvelji ekki á ákveðnum stað, að gera ráðstafanir svo að þeir geti orðið við skyldum sínum samkvæmt lögum. Kærandi geti því ekki borið fyrir sig að vegna staðsetningar sinnar hafi hann ekki getað mætt til umræddra viðtala heldur hafi kæranda borið að ferðast til Reykjavíkur til þess að uppfylla skyldur sínar sem atvinnuleitanda samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Að öðrum kosti gæti kærandi upp á sitt einsdæmi ákveðið hvenær og hvar samskipti við Vinnumálastofnun ættu sér stað. Í þessu samhengi vísist jafnframt til niðurlags ákvæðis 3. mgr. 13. gr. laganna þar sem sérstaklega sé kveðið á um að atvinnuleitendur skuli vera reiðubúnir að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara. Kærandi hafi fengið um sólarhrings fyrirvara í báðum tilfellum sem að mati Vinnumálastofnunar sé hæfilegur tími fyrir atvinnuleitendur til að gera viðeigandi ráðstafanir svo að þeim sé kleift að verða við skyldum sínum. Þá hafi, að mati Vinnumálastofnunar, óviðráðanleg atvik ekki staðið því í vegi að kærandi gæti mætt í umrædd viðtöl.

Í ljósi alls framangreinds, og þeirrar ríku skyldu sem hvíli á atvinnuleitendum til þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sé það mat Vinnumálastofnunar að skýringar þær sem kærandi hafi fært fram teljist ekki gildar í skilningi laga um atvinnuleysistryggingar. Með því að hafa hafnað því að mæta í umrædd viðtöl hafi kærandi brugðist skyldum sínum samkvæmt 7. mgr. 9. gr. og 3. mgr. 13. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Það sé því mat Vinnumálastofnunar að kærandi hafi hafnað þátttöku í vinnumarkaðsúrræði og beri honum því að sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar.

Vinnumálastofnun þyki þó rétt að nefna að mistök hafi orðið þegar kæranda hafi verið tilkynnt um möguleg viðurlög og síðar um ákvörðun Vinnumálastofnunar um viðurlög á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. Tiltekið hafi verið að kærandi hefði hafnað því að mæta í fjögur viðtöl en viðtölin hafi hins vegar aðeins verið tvö. Stofnunin biðji kæranda velvirðingar á því.

Með vísan til framangreindra sjónarmiða sé það niðurstaða Vinnumálastofnunar að kærandi skuli sæta viðurlögum á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga um atvinnuleysistryggingar. 

IV.  Niðurstaða

Kærð er ákvörðun Vinnumálastofnunar um að fella niður rétt kæranda til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006 um atvinnuleysistryggingar.

Í 58. gr. laga nr. 54/2006 er kveðið á um viðurlög við því ef þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað. Segir þar í 1. mgr. að sá sem hafnar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum, sbr. lög um vinnumarkaðsaðgerðir, samkvæmt ákvörðun Vinnumálastofnunar eftir að hafa verið í atvinnuleit í að minnsta kosti fjórar vikur frá móttöku Vinnumálastofnunar á umsókn um atvinnuleysisbætur, skuli ekki eiga rétt á greiðslu atvinnuleysisbóta samkvæmt VII. kafla laganna fyrr en að tveimur mánuðum liðnum, sem ella hefðu verið greiddar bætur fyrir, frá þeim degi er viðurlagaákvörðun Vinnumálastofnunar er tilkynnt aðila. Hið sama gildir þegar hinn tryggði mætir ekki til Vinnumálastofnunar á áður boðuðum tíma samkvæmt 6. mgr. 9. gr., nú 7. mgr. 9. gr.,  3. mgr. 13. gr. eða 3. mgr. 18. gr. laganna.

Í athugasemdum greinargerðar við frumvarp það er varð að lögum nr. 134/2009, um breytingu á lögum nr. 54/2006, segir meðal annars um viðurlög við að virða ekki boðun Vinnumálastofnunar:

„Í ljósi þess að mikilvægt er að Vinnumálastofnun geti haldið reglulegu sambandi við þá sem fá greiddar atvinnuleysisbætur, ekki síst til að geta fylgst með gangi atvinnuleitar og hvort stofnunin þurfi að koma að frekari stuðningi við viðkomandi, er lagt til að það kunni að varða viðurlögum á grundvelli laganna í þeim tilvikum er atvinnuleitendur virða ekki boðun stofnunarinnar skv. 1. gr. frumvarps þessa. Á þetta ekki síst við þegar fá störf eru í boði og auknar líkur eru á að atvinnuleitin dragist á langinn. Jafnframt er lagt til að sama gildi þegar atvinnuleitendur eru boðaðir til stofnunarinnar í því skyni að kanna hvort sá hinn sami uppfylli enn skilyrði laganna, sbr. 4. og 6. gr. frumvarps þessa. Er því gert ráð fyrir að sömu viðurlög komi til og eiga við þegar þátttöku í vinnumarkaðsaðgerðum er hafnað.“

Í 7. mgr. 9. gr. kemur fram að sá sem telst tryggður á grundvelli laganna skuli eftir að umsókn hans hafi verið samþykkt og á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum hafa reglulegt samband við Vinnumálastofnun eftir nánara fyrirkomulagi sem stofnunin ákveði. Þegar Vinnumálastofnun upplýsi umsækjanda um að stofnunin hafi samþykkt umsókn um atvinnuleysisbætur skuli hún jafnframt upplýsa hlutaðeigandi um með hvaða hætti stofnunin muni koma upplýsingum eða öðrum boðum til hans meðan á atvinnuleit hans standi. Komi Vinnumálastofnun upplýsingum eða boðum til umsækjanda með þeim hætti sem stofnunin hafi tiltekið við hlutaðeigandi teljast upplýsingarnar eða boðin hafa borist með sannanlegum hætti.

Þá segir í 3. mgr. 13. gr. laga nr. 54/2006 að Vinnumálastofnun sé heimilt að boða þann tryggða til stofnunarinnar með sannanlegum hætti á þeim tíma sem hann fái greiddar atvinnuleysisbætur eða sæti biðtíma eða viðurlögum samkvæmt lögunum, meðal annars til að kanna hvort breytingar hafi orðið á högum hans sem kunni að hafa áhrif á rétt hans samkvæmt lögunum. Hinn tryggði skuli þá vera reiðubúinn að mæta til stofnunarinnar með mjög skömmum fyrirvara.

Samkvæmt gögnum málsins var kærandi tvívegis boðaður í viðtal hjá Vinnumálastofnun í Reykjavík og í bæði skiptin boðaði hann forföll með vísan til þess að hann væri staddur úti á landi. Vegna þessa tók Vinnumálastofnun þá ákvörðun, á grundvelli 1. mgr. 58. gr. laga nr. 54/2006, að fella niður bótarétt kæranda með vísan til þess að hann hefði ekki mætt í boðuð viðtöl.

Úrskurðarnefndin bendir á beiting viðurlaga samkvæmt 58. gr. laganna er íþyngjandi ákvörðun og verður því að mati nefndarinnar að gera þær kröfur að fyrirliggjandi gögn bendi eindregið til þess að rétt sé að beita því úrræði. Fyrir liggur að í kjölfar seinni viðtalsboðunar tjáði kærandi Vinnumálastofnun að hann væri búsettur nálægt Egilsstöðum og því kæmist hann ekki í viðtal í Reykjavík. Ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið boðið að mæta í viðtal á þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar á Egilsstöðum en úrskurðarnefndin telur að fullt tilefni hafi verið til þess í kjölfar skýringa kæranda. Þar sem kærandi  tilkynnti Vinnumálastofnun um forföll vegna boðaðra viðtala er það mat úrskurðarnefndarinnar að ekki hafi verið heimilt að beita viðurlögum á grundvelli 58. gr. laga nr. 54/2006. Að því virtu er hin kærða ákvörðun felld úr gildi.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Vinnumálastofnunar, dags. 26. ágúst 2021, um að fella niður rétt A, til atvinnuleysisbóta í tvo mánuði, er felld úr gildi.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

___________________________________

Hólmfríður Birna Guðmundsdóttir

 

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum